Okkar ferðir logo

Hagnýtar upplýsingar fyrir Skíðaferðir

HAGNÝTAR UPPLÝSINGAR
FERÐAMANNASKATTUR
Ferðamannaskatturinn í Austuríki er ekki innifalinn í verði ferðarinnar. Hann greiðist á hóteli við brottför. Skatturinn er fyrir ferðir á árinu 2013 3,5 Evrur á mann á nótt og fyrir 2014 4 EUR.
Gildir aðeins fyrir þá sem verða 15 ára á árinu og eldri.

FLUG:
Flogið er með Icelandair til Innsbruck og tekur flugið rétt rúmar 4 klukkustundir.
Innifalin farangur er ferðataska sem má vera 20 kg og svo almennur handfarangur skv. reglum Icelandair.
Ef ferðast er með skíðabúnað þá þarf að greiða sérstaklega fyrir hann.
Skíðaútbúnaður má vera taska með skíðum eða bretti og tasa með skóm.

Skíðin er hægt að bóka um leið og ferðina og velja eins og aukaþjónustu eins og t.d. akstur til og frá flugvelli.

AKSTUR VIÐ KOMU:
Við komu tekur fararstjóri á móti gestum og er síðan haldið með rútu til Sölden. Ferðin tekur rúma eina klst. Á leiðinni fer fararstjóri yfir það helsta sem hafa þarf í huga í komandi skíðaviku, bæði hvað varðar hótelin, bæjarlífið og skíðalöndin. Athugið að ekki er leyfilegt að vera með opin drykkjarföng eða mat í rútunni.

HÓTELIN:
Við komu á sum hótel þarf að afhenda vegabréf og er því skilað síðar sama kvöld eða daginn eftir. Í sumum tilfellum þá er farastjóri búinn að ganga frá skráningu farþega hjá hótelinu og þá eru lyklarnir afhentir við komu og ekki þarf að sýna vegabréf. Við komu í matsal fyrsta kvöldið er rétt að bíða eftir þjóni eða yfirþjóni og er fólki þá vísað  til borðs sem það hefur síðan út vikuna. Gott er fyrir þá sem eru að ferðast saman að láta vita af því fyrirfram svo hægt sé að gera ráð fyrir því í matsalnum. Drykkjarföng getur fólk geymt milli daga. Morgunverður stendur frá kl. 7:30 eða 8:00 til kl. 9:00 eða 10:00 (aðeins mismunandi milli hótela). Kvöldverður er frá kl.18:30 eða 19:30 til kl. 21:00 eða 21:30. Mismunandi er hvenær heilsu aðstaða hótela er opin, en yfirleitt opnar hún um kl. 16:00 og er opin til kl. 18:30 til 19:30, á sumum hótelum þarf að panta tíma í heilsu aðstöðuna fyrirfram. Aðgangur barna yngri en 14-15 ára er yfirleitt bundinn því að þau séu í fylgd foreldra og þess gætt að ekki er um leiksvæði að ræða. Einstaka hótel leyfa ekki börn  á heilsu svæðinu. Allir gestir eru hvattir til að nota öryggishólf á herbergjum. Yfirleitt er ekki minibar á herbergjum. Kranavatnið á hótelunum er gott og öllum er óhætt að drekka það.

HEILSULINDIR:
Yfirleitt bjóða Austurísku skíðahótelin upp á heilsulind. Ætlast er til að fólk sé ekki í sundfötum en getur vafið sig í handklæði og sitji á handklæðum í sauna klefanum og það haft í huga að heilsulindin er fyrst og fremst hvíldarsvæði en ekki leikvöllur barna. Á sumum hótelum er aldurstakmark í heilsulindina sem miðast við 14 ára aldur.

SKÍÐAPASSAR:
Hægt verður að panta skíðapassa hjá Okkar Ferðum hér heima fyrir brottför. Farþegar fá nánari upplýsingar í tölvupósti þegar nær dregur.

GOTT AÐ HAFA Í HUGA ÞEGAR FARIÐ ER Í FJALLIÐ:
Muna skal að hafa með varaáburð og sólarvörn. Það taka ekki allir veitingastaðir í fjöllunum við greiðslukortum og því gott að hafa reiðufé með í för. Skylda er fyrir alla 17 ára og yngri að hafa skíðahjálma. Að sjálfsögðu er mælt með því að allir noti hjálm. Góð sólgleraugu og skíðagleraugu eru nauðsynleg. Skíðagrímu er gott af hafa ef spáð er köldu veðri.  Aldrei skal stöðva undir blindhæð. Muna skal að skíða með aðgát og hafa í huga að sá sem er neðar í brekkunni á alltaf réttinn. Ráðlagt er að vera alltaf með símanúmer fararstjóra í farsímanum - ef eitthvað skyldi bera út af.

SKÍÐASKÓLI:
Þeir sem vilja fara í skíðaskóla geta snúið sér til fararstjóra ef þeir óska eftir aðstoð eða upplýsingum varðandi innritun og verð. Allir hafa gott og gaman að því að fara í kennslu og best er að fara í nokkra daga en einnig er hægt að fá einn og einn dag í einkakennslu.
Best er að ganga frá pöntun í upphafi ferðar því þegar líða tekur á vikuna er oft erfitt að fá tíma.

SKÍÐABÚNAÐUR OG LEIGA:
Það eykur ánægju ykkar að hafa skíðabúnaðinn í góðu lagi og rétt stilltan, það er misskilningur að það sé verra að hafa vel áborin skíði, það er mun auðveldara að skíða ef þau renna vel.
Það er góð venja að þurrka skíðaskóna á hverju kvöldi. Þar sem góð aðstaða er á hótelum er nóg að setja skóna á þurrkstandinn, þar sem það er ekki fyrir hendi getur verið nauðsynlegt að taka innri skóinn og þurrka hann upp á herbergi. Þegar stoppað er í fjallinu í hádeginu og kaffitímum er mikilvægt að ganga vel og snyrtilega frá skíðunum, láta þau ekki liggja eftir í snjónum heldur setja þau í skíðastatífin. Gott getur verið að víxla skíðunum við ferðafélagann svo þau verði ekki tekin í misgripum.

TÍMAMISMUNUR:
Austurríki einni klukkustund á undan Íslandi á veturna og tveimur tímum á undan á sumrin.

GREIÐSLUKORT OG HRAÐBANKAR:
Hraðbankar eru á nokkrum stöðum en fara þarf varlega í að nota þá þar sem sumir eru með mjög hátt þjónustugjald. Spyrjið farastjóra ef þið eruð í vafa.Langflestir þjónustuaðilar og verslanir í Austurríki taka öll helstu kreditkort. Ekki er hægt að treysta því að hægt sé að greiða fyrir vöru eða þjónustu með debetkorti, en að sjálfsögðu er hægt að taka pening út úr hraðbönkum, hvort sem er út á kredit- eða debetkort.

GOTT AÐ VITA
Drekka má vatnið úr krananum, enda ferskt fjallavatn.
Til þess að þið njótið ferðarinnar sem best þá viljum við hvetja ykkur til að gæta fyllsta öryggis þegar þið eruð á skíðum, munið að taka tillit til aðstæðna, ætlið ykkur ekki of mikið og sýnið tillitssemi í brekkunum, það er almenn regla að þeir sem skíða framúr ber að taka fullt tillit til aðstæðna.
Hafið samband við fararstjóra ef veikindi eða slys ber að garði.

Við viljum svo að lokum óska ykkur alls hins besta og vona að þið njótið dvalarinnar.